Skip to content

Markmið

Meginmarkmið stefnu Reykjavíkurborgar er að stuðla að sem bestri þjónustu við nemendur með sérþarfir í grunnskólum borgarinnar, uppfylla markmið laga og Aðalnámskrár um kennslu í samræmi við eðli og þarfir nemenda og að nýta fjármagn til sérkennslu sem best.

Í Hamraskóla er leitast við að styðja nemendur eftir þörfum, ýmist í námsveri eða innan bekkjar, til lengri eða skemmri tíma. Skipulag stuðnings er í höndum sérkennara, umsjónarkennara eða í samvinnu beggja.  Stuðningsfulltrúar eru nemendum til aðstoðar í nokkrum bekkjardeildum.

Stuðningur getur falið í sér ýmist breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Þannig getur einn nemandi þurft tímabundinn stuðning í vissri námsgrein í formi námsskeiðs meðan annar þarf stöðugan stuðning í öllum námsgreinum og einstaklingsnámskrá. Lögð er áhersla á snemmtæka íhlutun einstaklingslega, í hópum og námskeiðsformi.

Sérkennarar og/eða umsjónarkennarar leggja eftirtalin próf/skimanir fyrir nemendur til að finna þá sem þarf að fylgjast sérstaklega með og/eða þurfa sérkennslu og til þess að fylgjast með framvindu náms í hverjum árgangi. Einstaklingspróf eru í sumum tilfellum lögð fyrir í framhaldi af skimunum og eru þau merkt sérstaklega. Ef greiningarpróf gefa vísbendingar um örðugleika er nemendum vísað til ítarlegri greiningar hjá sérkennara eða skólasálfræðingi.

Einstaklingsáætlun er gerð fyrir nemendur sem þörf þykir á að gera verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og /eða kennsluháttum miðað við það sem öðrum nemendum er boðið upp á. Sérkennari og umsjónarkennarar fara yfir stöðu nemenda og vinna síðan áætlun í samráði við foreldra og nemendur.

Umsjónarkennari ber ábyrgð á að einstaklingsáætlun sé gerð en hún er unnin í samvinnu sérkennara og umsjónarkennara og fylgt eftir af sérkennara.

Lykillinn að þroska og framförum nemenda er þátttaka og eftirfylgni foreldra í góðu samstarfi við skólann.