Skólasóknar- og ástundunarreglur
Skólasóknar- og ástundunarreglur
Samræmdar reglur um skólasókn og ástundun nemenda í grunnskólunum í Grafarvogi og á Kjalarnesi.
Tilgangur
Tilgangurinn með reglunum er að skapa nemendum, foreldrum og skólasamfélaginu öllu öryggi og gegnsæi með því að samræma verkferla grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi varðandi skólasókn og ástundun.
Inngangur
Allt starf grunnskólans byggir á lögum um grunnskóla. Í lögunum er kveðið á um réttindi og skyldur nemenda, foreldra og grunnskólans. Þar segir meðal annars í greinum 13, 14, 15, 17, 18 og 19 um réttind og skyldur:
Grunnskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. …
14. gr.
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.
Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. …
15. gr.
Nemendum er skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum þessum.
Skólaskylda barns hefst að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn [skólaþjónustu].
Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms.
Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. …
17. gr.
Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni [fatlaðs fólks], 1) nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.
Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags. …
18. gr.
Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna.
Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. …
19. gr.
Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. …
Af ofangreindum tilvitnunum í grunnskólalög má ljóst vera að öll börn og ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára eru skólaskyld. Þó ber að hafa í huga undanþágu sem fram kemur í 15. grein. Foreldrar bera ábyrgð á því að börn á skólaskyldualdri innritist í grunnskóla, sæki skólann og stundi þar nám sbr. 19 grein. Nemendur eiga rétt á því að skólinn sé góður vinnustaður þar sem þeir dvelja við öruggt og hvetjandi námsumhverfi undir leiðsögn kennara sbr. 13. grein. Nemendum ber að fara eftir fyrirmælum allra starfsmanna skólanna, virða skólareglur og stunda námið sbr. 14. grein. Skólaskylt barn og ungmenni er skyldugt að sækja skólann sbr. 15. grein. Ef misbrestur verður á skólasókn ber foreldrum/forráðamönnum og skólanum að bregðast við. Til þess að þau viðbrögð verði sem árangursríkust hafa grunnskólarnir í Grafarvogi og á Kjalarnesi sett sér samræmd viðmið og reglur sem þeir vinna eftir. Liður í því að ná sem bestum árangri er að umsjónarkennarar allra bekkja sendi foreldrum/forráðamönnum vikulega upplýsingar um skólasókn nemenda sinna.
Verði misbrestur á skólasókn nemenda í grunnskólum í Grafarvogi og á Kjalarnesi gilda eftirfarandi reglur.
Í upphafi skólaárs og við annaskil eru allir nemendur með fullnægjandi skólasókn. Fjarvistarstig eru gefin vegna óheimila fjarvista og óstundvísi eftir ákveðnu kerfi. Óstundvísi er eitt fjarvistarstig (1) og óheimil fjarvist er tvö fjarvistarstig (2). Fjarvistarstig fyrir óstundvísi er gefið þegar kennari er mættur til kennslu og nemandi ekki mættur. Tvö fjarvistarstig eru gefin fyrir fjarvist þó nemandi mæti í seinni helming kennslustundar.
Skólasókn nemenda sem eru komnir með 40 fjarvistarstig er vísað til nemendaverndarráðs skóla.
Þó meginreglan sé sú að fylgja beri þessum viðmiðum skulu starfsmenn skóla ævinlega leggja faglegt mat á aðstæður nemenda og taka tillit til aldurs þeirra og þroska.
Þegar nemandi hefur fengið 10 fjarvistarstig
Umsjónarkennari hefur samband við foreldra/forráðamanna í gegnum Mentor /Námfús og ræðir við nemandann. Ef ástæða er til hefur umsjónarkennari samband við foreldra/forráðamenn símleiðis eða boðar þá til fundar. Dagsetning viðtals og/eða símtals er skráð í Mentor/Námfús.
Þegar nemandi hefur fengið 20 fjarvistarstig
Umsjónarkennari boðar foreldra/forráðamenn til fundar ásamt nemanda, námsráðgjafa og skólastjóra eða fulltrúa hans. Gerð er áætlun um bætta skólasókn sem fundarmenn undirrita. Dagsetning fundar er skráð í Mentor/Námfús.
Þegar nemandi hefur fengið 40 fjarvistarstig – umsjónarkennari vísar máli nemanda til nemendaverndarráðs
Umsjónarkennari vísar málinu til nemendaverndarráðs. Skólastjóri eða fulltrúi hans boðar foreldra/forráðamenn, nemanda og þá sem hafa komið að málinu innan skólans til fundar þar sem leitað er lausna á vanda nemandans. Á fundinum er gerð aðgerðaráætlun sem allir fundarmenn undirrita. Dagsetning fundar er skráð í Mentor/Námfús.
Þegar nemandi hefur fengið 60 fjarvistarstig – skólastjóri sendir tilvísun til Miðgarðs
Skólastjóri eða fulltrúi hans sendir tilvísun til Viðbragðsteymis Miðgarðs sem boðar til fundar svo fljótt sem verða má með foreldrum/forráðamönnum og fulltrúum skóla. Markmiðið er að bregðast við með persónulegri aðstoð og ráðgjöf við nemanda með skoðun á námsumhverfi, líðan og félagslegum aðstæðum.
Þegar nemandi hefur fengið 90 fjarvistarstig eða fleiri - skólastjóri vísar máli til Barnaverndar Reykjavíkur í samráði við Miðgarð
Eftir umfjöllun í nemendaverndarráði sendir skólastjóri tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur sem tekur við málinu skv. verklagsreglum Skóla- og frístundasviðs og Velferðarsviðs um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins vegna nemenda með fjölþættan vanda. Barnavernd leiðir þá teymi og ber ábyrgð á vinnu þess, sbr. verklagsreglu C, lið 8.
Foreldrar tilkynni um veikindi barna sinna daglega fyrir upphaf skóladags. Tilkynna skal veikindin símleiðis til ritara skólans eða rafrænt í Mentor/Námfús. Ef veikindin vara í nokkra daga (5 - 10 daga) er mögulegt að gera samkomulag við umsjónarkennara um skráningu. Ef um langvinn veikindi er að ræða eða veikindadagar eru orðnir fleiri en 10 á skólaárinu áskilur skólastjóri sér rétt til að kalla eftir læknisvottorði. Skólastjóri metur hvort ástæða er til að senda tilvísun í viðbragðsteymi Miðgarðs. Þó meginreglan sé sú að fylgja beri þessum viðmiðum skal ævinlega leggja faglegt mat á aðstæður nemenda.
Um langvinn veikindi gildir 17.gr. grunnskólalaga.
Lög um grunnskóla; úr 17.gr. Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.
Foreldrum eða forráðamönnum ber að sækja um leyfi fyrir börn sín með góðum fyrirvara.
Ef um lengra leyfi en einn dag er að ræða ber að sækja um það skriflega á þar til gerðu eyðublaði sem vistað er á heimasíðu skólans og tekur leyfið gildi þegar skólastjóri/staðgengill hans hefur samþykkt leyfið.
Ef sótt er um leyfi fyrir nemanda í lengri samfelldan tíma en 5 daga eða leyfisdagar eru orðnir fleiri en 10 á skólaárinu ber foreldrum/forráðamönnum að sækja um leyfið skriflega og eiga fund með skólastjóra eða staðgengli hans og gera grein fyrir ástæðum fjölda leyfisdaga. Að öðrum kosti er skráð fjarvist hjá nemandanum.
Leyfi frá skóla telst tímabundin undanþága frá skólaskyldu barns. Foreldrar bera ábyrgð á námi nemenda meðan þeir eru í leyfi sbr. 15. grein grunnskólalaga.
Lög um grunnskóla; úr 15.gr. Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.
Ef í ljós kemur að sótt er ítrekað um leyfi eða tilkynnt eru veikindi fyrir nemanda í einstakri námsgrein ber umsjónarkennara að kanna ástæður þess hjá foreldrum/forráðamönnum.
Lög um grunnskóla; úr 13.gr. Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.