Félagsmiðstöðin Fjörgyn

Félagsmiðstöðvar starfa samkvæmt Starfsskrá skrifstofu tómstundamála (ÍTR) sem kom út vorið 2007 og er megináherslan lögð á starf fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Starf fyrir börn á aldrinum 10-12 ára hefur þó verið að aukast í félagsmiðstöðvunum í Grafarvogi undanfarin ár. Í starfi félagsmiðstöðva er lögð áhersla á að þjálfa samskiptafærni, auka félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og efla samfélagslega virkni og þátttöku. Síðast en ekki síst er verið að taka þátt í starfi þar sem skýr afstaða er tekin gegn neyslu vímuefna og annarri neikvæðri hegðun. Barna- og unglingalýðræði er hugmyndafræðin sem starfið byggir á og tryggir áhrif barna og unglinga á starfið. Kosningar í miðstigsráð og unglingaráð eru í anda þessarar hugmyndafræði en mikilvægasta hlutverk ráðanna er að virkja sem flesta til þátttöku í starfinu ásamt því að standa fyrir og skipuleggja dagskrána.

Félagsmiðstöðvar Gufunesbæjar í Grafarvogi eru starfræktar, eins og áður hefur komið fram, inni í grunnskólunum og í hverri félagsmiðstöð starfa 4-5 starfsmenn í mismunandi stöðuhlutföllum. Margir starfsmenn hafa aflað sér menntunar á sviði uppeldis- og frístundastarfs en auk þess hafa þeir ólíkan bakgrunn og menntun þar sem slík fjölbreytni nýtist vel í starfinu.  Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Gufunesbær standa einnig fyrir sérsniðnum námskeiðum og þjálfun fyrir starfsmenn. Upplýsingar um Fjörgyn má finna á heimasíðu Gufunesbæjar.