Skip to content

Heimanámsstefna Hamraskóla

Meginmarkmið heimanáms í Hamraskóla er að nemendur læri að sýna sjálfsaga, efla þrautseigju og læri að vinna á eigin spýtur, fái aukna þjálfun í einstaka viðfangsefnum og séu undirbúnir undir kennslustundir. Í skólastefnu Hamraskóla kemur fram að lestur og læsi er meginþungi í öllu skólastarfi og endurspeglast það einnig í heimanámsstefnu skólans. Stefnt er að því að stilla heimanámi í hóf sérstaklega hjá yngstu nemendunum.

Megináherslan er á heimalestur. Nemendur eiga að þjálfa sig heima í lestri á hverjum degi og foreldrar fylgjast með og skrá niður það sem lesið var og kvitta fyrir. Ekki er nokkurt vafamál að læsi er undirstaða alls annars náms og öflugast tæki nemenda til að afla sér þekkingar. Mikilvægt er að nemendur nái sem fyrst góðum tökum á lestri og lesskilningi. Það er með lestur eins og íþróttir; stöðug þjálfun er nauðsynleg til að viðhalda getu og úthaldi. Auk lesturs fylgja stöku verkefni fyrir nemendur til áframhaldandi þjálfunar á því sem búið er að vinna með í skólanum. Ef nemendur og foreldrar vilja fá meiri heimavinnu bendum við á vefinn mms.is, þar má finna mikið af hlustunarefni og gagnvirku námsefni.

Megináhersla heimanáms á miðstigi er undirbúningur undir kennslustundir, aukin þjálfun á viðfangsefnum sem unnið er með í skólanum og að foreldrar geti fylgst með námi barna sinna. Lestur er enn mikilvægasti hlutinn af daglegu heimanámi. Bæði getur verið um að ræða lestur í lestrarbókum og öðrum námsbókum þar sem áhersla er lögð á lesskilning. Auk lesturs eru gjarnan sett fyrir verkefni í ýmsum námsgreinum sem ætluð eru til þjálfunar. Ef nemendur og foreldrar vilja fá meiri heimavinnu bendum við á vefinn mms.is.is, þar má finna má mikið af hlustunarefni og gagnviku námsefni. Stefna skólans skal þó ávallt vera að stilla heimanámi í hóf eins og kostur er.