Leiðsagnarnám
Bæklingur um leiðsagnarnám
Hvers vegna? Góð námsmenning er forsendaleiðsagnarnáms, án hennar geta nemendur ekki tekið við leiðsögn/endurgjöf og notfært sér hana. Auk þess er góð námsmenning nauðsynleg til að
uppbyggilegar samræður og samvinna geti átt sérstað í nemendahópnum.
Góð námsmenning einkennist af eftirfarandi:
Væntingar. Kennarinn væntir þess að allir
nemendur geti aukið framfarir sínar í náminu þegar námið er við hæfi. Væntingar kennarans hafa þau áhrif að allir nemendur vita að þeir geta aukið framfarir sínar og þeir fagna því áskorunum.
Hugarfar. Vaxandi hugarfar er ríkjandi.
Nemendur eru meðvitaðir um eigið nám og
námsstíl. Nemendur vita hvernig og hvenær þeir læra, þeir þekkja styrkleika sína og vinna með veikleikana.
Heilinn. Nemendur vita að heilinn virkar á
svipaðan hátt og vöðvi, þegar hann er notaður styrkist hann og eflist. Í hvert sinn sem nemendur öðlast nýja hæfni verða til nýjar brautir í heilanum.
Mistök. Mistök eru eðlilegur þáttur í námsferlinu, allir geta lært af þeim. Ef nemandi gerir engin mistök þá er hann líklega ekki að læra neitt nýtt.
Þrautseigja. Nemendum er hrósað fyrir að ná árangri með þrautseigju, ekki fyrir að vera fljótir eða svo miklir snillingar að þeir þurfa ekki að hafa fyrir hlutunum.
Grípum þau góð. Kennarinn verkur athygli á því sem vel er gert en þegar hann þarf að finna að t.d. hegðun er það gert með einkasamtali.
Námssamfélag. Nemendahópurinn/bekkurinn
lærir saman m.a. með því að deila þekkingu og mistökum.
Getublöndun. Nemendur kunna að vinna með ólíkum einstaklingum og vita að það skilar góðum árangri fyrir alla. Nemendur með sérþarfir eru almennt að vinna sömu verkefni og aðrir nemendur en fara oft aðrar leiðir að markmiðinu.
Þátttaka nemenda. Kennarinn veitir nemendum hlutdeild í skipulagningu náms og kennslu t.d. með þátttöku þeirra í að setja viðmið. Hugmyndir þeirra
og áhugamál vega þungt.
Hvers vegna? Til að nemendur læri það sem þeim erætlað að læra samkvæmt aðalnámskrá, og til að tíminn nýtist sem best. Það sem einkennir gott skipulag er:
Undirbúningur. Kennarinn ákveður markmið kennslustundarinnar/lotunnar út frá hæfniviðmiðum og lykilhæfni aðalnámskrár/ skólanámskrár og velur viðfangsefni (leið að markmiðinu) sem hann
telur hjálpa nemendum til að tileinka sér
viðkomandi hæfni. Hann þekkir þarfir nemenda sinna og tekur mið af þeim við skipulagningu námsins.
Kennslustofan. Öll gögn sem nemendur þurfa að nota eru til staðar og aðgengileg þegar kennslustundin hefst.
Námsstoðir og námsveggir. Áður en nemendur vinna verkefni eru byggðar upp námsstoðir sem styðja við nám nemenda t.d. listi af orðum til að nota í ritun eða aðferðir í stærðfræði. Námsstoðir
og annað efni sem getur stutt við nám nemenda er á veggjum í kennslustofunnar og nemendur nýta það.
Kennslustundin. Uppbygging kennslustundarinnar fylgir í megindráttum eftirfarandi ferli:
Áhugi nemenda vakinn
Námsmarkmið sett
Viðmið ákveðin (hvað er gott verkefni?).
Námsstoðir
Verkefnavinna, sem er fjölbreytt bæði
hópvinna og einstaklingsvinna.
Samantekt
Samræður, endurgjöf og úrvinnsla eru samofinn öllu ferlinu.
Tímastjórnun. Einkennandi fyrir kennslustundina er markviss tímastjórnun kennara. Nemendur nýta hverja stund.
Hvers vegna? Ef nemendur eiga að geta tekið ábyrgð á námi sínu þarf námið að vekja áhuga þeirra og hafa tilgang í þeirra huga. Þeir þurfa að vita hvað þeir eiga að læra (hvaða hæfni þeir eiga að tileinka sér) í tímanum/lotunni og hafa upplýsingar um hvað sé til marks um hvenær þeir hafa náð námsmarkmiðinu, með öðrum orðum hvernig vinna þeirra verður metin. Til að nemendur geti unnið verkefnið sitt eins vel og kostur er, verða þeir að vita hvernig gott verkefni er áður en vinnan hefst. Það sem einkennir upphaf kennslustunda er:
Áhugi. Kennarinn notar fjölbreyttar aðferðir til að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu. Jafnframt kannar hann þekkingu þeirra á efninu. Sem dæmi má nefna efni af netinu t.d. brot úr kvikmynd,
tónlist, frétt úr fjölmiðlum, upplestur, ljósmyndir eða hluti. Með dæmunum vaknar skilningur nemenda á því að viðfangsefnið skiptir máli.
Námsmarkmið. Nemendur fá að vita hvað þeir eiga að læra í tímanum / lotunni. Kennarinn er meðvitaður um það er munur á verkefninu sjálfu og námsmarkmiðinu. Dæmi: Verkefni kennslustundarinnar er að nemendur færi skrifleg rök með eða á
móti því að kosningaaldur verði færður niður í 16 ár. Námsmarkmiðið er fengið úr hæfniviðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla:
Við lok 10. bekkjar getur nemandi tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim í rituðu máli (Íslenska, ritun).
Einnig lykilhæfni: Við lok 10. Bekkjar getur
nemandi brugðist með rökum við upplýsingum og hugmyndum sem eru á margvíslegu formi, tekið þátt í rökræðum um viðfangsefni og rökstutt mál sitt af
yfirvegun og tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, rætt á viðeigandi og skýran hátt um málefni þannig að áhugi viðmælenda sé vakinn.
Námsmarkmið kennslustundarinnar er því að nemendur geti tekið þátt í rökræðum á þann hátt sem kveðið er á um, og fært skrifleg rök fyrir skoðunum sínum, í þeim málum sem um ræðir hverju sinni. Enda þótt verkefnið sé um breytingu á
kosningalögum er markmiðið ekki bundið við það. Þetta er haft í huga þegar viðmiðin eru ákveðin.
Fyrirmyndir og viðmið. Nemendur skoða
mismunandi útfærslu verkefna. Ef við höldum okkur við námsmarkmiðið hér á undan þá væri líklegt að nemendur myndu skoða nokkrar mismunandi fyrirmyndir, t.d. rökræður á netinu og greinar sem
birst hafa í fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum
og/eða skoðað sambærileg verkefni sem aðrir nemendur hafa áður unnið. Undir stjórn kennara er efnið rætt og ólíkar útfærslur bornar saman. Loks er tekin ákvörðun um hvað einkenni góðar
munnlegar og skriflegar rökræður og þau atriði skráð á töfluna. Viðmiðin hafa nemendur til hliðsjónar í verkefnum sínum og árangurinn er metinn út frá þeim.
Hvers vegna? Þegar kennarinn hefur gott vald á spurningatækni getur hann kannað þekkingu nemenda bæði í upphafi tímans og síðar. Þannig fylgist kennarinn með því hvar nemendur er staddir á leið sinni að markmiðinu, sem gefur honum jafnt og
þétt tækifæri til að aðlaga námið að þörfum
nemendanna og veita endurgjöf. Samræður nemenda annarsvegar og nemenda og kennara hins vegar stuðla að því að þekking og hugmyndir dreifast um nemendahópinn, þannig er t.d. hægt er að reisa námsstoðir fyrir nemendur. Samræður auka líkurnar
á þátttöku allra nemenda og hjálpar þeim að auki að skipuleggja hugsun sína. Rannsóknir Hattie sýna að markvissar samræður nemenda um námið hafa mikil
áhrif á námsárangur nemenda. Það sem einkennir kennsluna þegar spurningatækni
og samræðum er beitt markvisst:
Engar hendur upp. Kennari leggur opna spurningu fyrir nemendahópinn og gefur nauðsynlegan tíma til umhugsunar (1/2 - 1 mín.). Þá dregur kennarinn nafn eins nemanda og biður hann um að svara
spurningunni. Kennarinn gæti verið búinn að skrifa nöfn hvers nemanda á tunguspaða eða íspinnaspýtu sem hann hefur í krús á borðinu. Hann getur einnig hafa skrifað nöfnin á kort sem hann hefur í stokk sem hann dregur úr. Loks gæti hann hafa skráð nöfn allra nemenda á vegg-skífu með
vísi sem hann snýr. Aðalatriðið er að allir nemendur vita að þeir geta alltaf orðið fyrir valinu og þurfa að búa sig undir að svara. Þess vegna er nauðsynlegt að öll nöfnin séu alltaf til staðar, líka þeirra sem hafa svarað. Þeir eru með öðrum orðum ekki búnir og komnir í frí. Ef nemandinn sem verður
fyrir valinu treystir sér ekki til að svara segir hann pass og kennarinn dregur annað nafn. Ef nemandinn hefur misskilið spurninguna eða svar hans er ekki rétt gæti kennarinn spurt nánar til að leiða hann á rétta braut eða endurorðað svarið svo að það fari í réttan farveg. Kennarinn gefur fleiri
nemendum tækifæri til að bæta við eða koma með athugasemdir. Opnar spurningar eru notaðar til að dýpka og víkka svarið svo þekking nemendanna eða skilningur komist vel til skila í sameiginlegan þekkingarforða hópsins.
Samráðsfélagar. Af og til biður kennarinn
nemendur um að snúa sér að samráðsfélaga sínum, til að svara spurningu, leysa eða undirbúa verkefni í afmarkaðan tíma, oft 1 – 5 mín. Nemendur hafa verið þjálfaðir í að vera samráðsfélagar og bekkurinn/hópurinn hefur ákveðið viðmið um hvernig góður samráðsfélagi vinnur. Nemendur eru paraðir saman með tilviljun og skipta reglulega um
samráðsfélaga, t.d. vikulega en sjaldnar þegar nemendur eldast. Þeir sitja saman á tímabilinu. Þegar einhver nemandi hefur takmarkað vald á íslensku er gott að hann hafi tvo samráðsfélaga. Mikill kostur er ef annar þeirra hefur sama móðurmál og hann en hefur náð betri tökum á íslenskunni.
Dæmi um viðfangsefni samráðsfélaga:
Samráðsfélagar safna saman og skrá orð
sem nota á í ritun - Námsstoðir.
Kennarinn hefur reiknað fjögur dæmi á
töfluna, eitt þeirra er rangt reiknað.
Samráðsfélagar eiga að finna út hvaða
dæmi það er og rökstyðja.
Samráðsfélagar sjá fjórar mismundandi
teikningar af fiðrildi og eiga að koma sér
saman um hverjar eru bestar og hvers
vegna - Viðmið
Samráðsfélagar skiptast á verkefnum og
meta þau út frá viðmiðunum sem hafa
verið skilgreind, og gera hvor öðrum
munnlegar grein fyrir því hvað þeim þykir
vera vel gert og hvers vegna og hvað þær
gætu gert enn betur.- Jafningjamat.
Kennarinn hefur skráð fimm ólíkar
fullyrðingar á töfluna. Samráðsfélagar
eiga að finna hver er rétt og rökstyðja.
Kennarinn gengur um, fylgist með og veitir
endurgjöf. Þegar samráðstíminn er liðinn biðurkennarinn samráðsfélagana, eitt par eða fleiri um að gera bekknum/hópnum grein fyrir niðurstöðum sínum og spyr nánar. Stundum biður hann annan
samráðsfélagann um að segja frá hugmyndum félaga síns.
Hvers vegna? Ein stærstu sóknarfæri kennara til að auka framfarir nemenda eru fólgin í því að veita nemendunum góða endurgjöf. Markmið endurgjafarinnar er að hjálpa nemandanum til að auka framfarir
sínar. Endurgjöfin felur í sér leiðsögn sem lokar bilinu milli núverandi stöðu nemandans og markmiðanna sem hann stefnir að. Ef endurgjöfin felur ekki í sér
leiðsögn um hvert nemandinn skuli stefna næst eða hvernig hann geti aukið gæði verkefnis síns er hún ekki góð. Forsenda endurgjafar er því að nemendur geti nýtt sér hana. Bestur árangur af endurgjöf er þegar leiðsögninni er beint að:
gæðum náms nemandans, ekki samanburði
við aðra nemendur
sértækum úrræðum sem nemandinn getur
notað til að auka gæði vinnunnar
framförum sem nemandinn hefur náð
samanborðið við fyrri vinnu hans
Til að nemendur geti tekið á móti endurgjöf þarf að byrja á því að þróa námsmenningu við hæfi. Nemandinn þarf m.a. að búa yfir réttu hugarfari og sjálfstrausti til að geta tekið á móti endurgjöf og byggt á henni. Kenna þarf nemendum að nýta sér
endurgjöf, jafnframt þurfa nemendur að læra að veita hver öðrum endurgjöf.
Clarke og Hattie (2018) halda því fram að sú
endurgjöf sem hefur mest áhrif sé endurgjöfin sem nemendur veita kennaranum. Þegar kennarinn veit hvað
nemendur hans vita, skilja, misskilja og hvaða villur þeir gera, verður hann færari um að laga nám og kennslu að þörfum nemendanna. Þrátt fyrir góðan árangur af
endurgjöf þarf kennari alltaf að vera meðvitaður um að stundum getur verið árangursríkara að kenna efnið aftur á annan hátt, frekar en að veita endurgjöf þegar
nemendum hefur ekki tekist að ná námsmarkmiðum sínum. Tilgangslítið er að eyða dýrmætum tíma í að veita endurgjöf sem nemendur geta ekki notað til að
auka framfarir sínar í náminu. Það sem einkennir kennsluna þar sem endurgjöf er
beitt á markvissan og leiðbeinandi hátt:
Endurgjöf alla kennslustundina. Námsmarkmið hafa verið vel skilgreind og brotin niður í viðmið. Kennarinn veitir jafnt og þétt endurgjöf í kennslustundinni / lotunni t.d. þegar einstaka nemendur og samráðsfélagar svara spurningum hans eða ræða saman. Tvær/þrjár stjörnur og ein ósk. Bæði kennari og nemendur nota tvær/þrjár stjörnur og eina ósk þegar þeir eru að veita endurgjöf. Tvö – þrjú atriði sem eru vel gerð miðað við viðmiðin og eitt sem væri hægt að gera betur.
Smátöflur. Nemendur nota smátöflur til að skrifa á svör sín eða dæmi til að kennarinn sjái á augabragði hvort allir hafi skilið. Stundum biður kennarinn nemendur um að lyfta töflunum svo hann sjái betur og geti brugðist við í samræmi við niðurstöður.
Kennarinn gengur um. Meðan nemendur ræða saman eða vinna að verkefnum sínum gengur kennarinn um, hlustar eftir og skoðar. Hann vekur athygli nemendanna á því sem er athyglisvert og / eða vel er gert og bendir á það sem gæti aukið gæði verkefnisins. Hann leitast við að skilja hvað
nemandinn er að hugsa og styður hann til
sjálfsmats.
Áherslupennar. Kennarinn notar áherslupenna t.d. gulan til að merkja við það sem er gott í skriflegum verkum nemenda en t.d. blátt við það sem þarf að bæta. Hann gengur um og metur hvort og hvernig
nemendur ná viðmiðum verkefnis og notar pennana til að strika undir það sem við á hjá nemendum. Kennarar skólans samræma notkun lita.
Mat hópsins. Einstaklingar og hópar kynna
verkefni sín fyrir öllum bekknum / hópnum.
Hópurinn gefur tvær / þrjár stjörnur og eina
áskorun, ræðir málin og bendir á hugsanlega möguleika til að auka gæði verkefnisins.
Endurgjöf jafningja. Kennarinn biður samráðsfélaga um að skiptast á verkefnum og þeir meta gæði þeirra út frá viðmiðunum. Þeir merkja t.d. við tvennt sem er gott og eitt sem mætti vera betra. Þeir gera félaga sínum munnlega grein fyrir mati
sínu og koma með tillögur að úrræðum, nemandinn ákveður sjálfur hvort hann nýti tillögur og ráð sem hann fær.
Sjálfsmat. Nemendur meta sjálfir verkefni sín á grundvelli viðmiðanna. Nemendur nýta endurgjöfina. Í hverri kennslustund eða lotu er gert ráð fyrir tíma sem nemendur hafa
til að nýta endurgjöfina. Stundum er vinstri
blaðsíðan í vinnubók notuð til að nemendur geti skrifað aftur eftir að hafa fengið endurgjöf. Skrifleg endurgjöf. Stundum þarf kennarinn að veita endurgjöf þegar kennslustundinni er lokið. Hann metur þá verkefnið út frá markmiðum þess og
þeim viðmiðum sem lágu fyrir. Hann getur t.d. notað áherslupenna eða gefið tvær stjörnur fyrir það sem vel er gert og skrifað eina áskorun um það sem mætti bæta. Næst þegar hann hittir nemendur fá þeir tækifæri til að nýta sér endurgjöfina.