Skip to content

Jólafréttir

Það hefur margt verið gert í aðdraganda jóla hér í Hamraskóla. Gleðin hófst í byrjun desember þegar nemendur í 7. bekk skreyttu skólann. Jólaskreytingarnar og jólaljósin setja sinn svip á umhverfið og gleðja stóra sem smáa.

Jólakortasamkeppnin hófst einnig í byrjun desember og stóð yfir í rúma viku. Mörg listaverk urðu til og margir sem hefðu getað unnið en í ár  var það Zoe í 2. bekk sem vann með glæsilegu korti.

Þá var ákveðið að setja af stað keppni um jólalegasta bekkinn en það var hugmynd sem kom frá miðstigsráðinu. Það var mjög góð stemmning í salum þennan dag vart mátti á milli sjá hvaða bekkur var jólalegastur. Þrír dómarar fengu það erfiða verkefni að velja jólalegasta bekkinn og hlaut 3. bekkur þá nafnbót.

Við fórum í kakógöngu í Gufunesbæ að morgni óverðursdags en búið var að spá óveðri seinni partinn. Í Gufunesbæ þennan morgun var aftur á móti hið besta veður og allir fengu kakó og gengu síðan sælir aftur upp í skóla og komu nemendur í hús rauðir í kinnum og glaðir í sinni.

Foreldrum og nemendum var boðið á kórtónleika þar sem Auður Guðjohnsen stýrði kórnum af mikilli röggsemi. Það var virkilega gaman að hlusta á kórinn syngja og sjá gleðina sem ríkti á meðal kórmeðlima.

Hefð er fyrir því að 5. bekkur sýni helgileik fyrir nemendur skólans. Guðfinna kennari og Auður tónlistakennari æfðu helgileikinn með nemendum. 5. bekkurinn okkar er fámennur í ár og þurftu sumir leikarar að taka að sér fleiri en eitt hlutverk. Allir lögðu sig fram og var útkoman glæsileg hjá þessum flottu krökkum.

Árlegir jólaleikar voru á sínum stað og lukkuðust mjög vel. Það voru Jólapítsurnar sem fóru með sigur af hólmi og leystu allar sínar þrautir af myndugleik og fengu flest stig. Jólastubbarnir voru næstir því að giska á fjölda piparkaka í krús sem búið var að stilla upp á ganginum. Piparkökurnar voru 196 og giskuðu þeir á 182 piparkökur.

Við höfum einnig fengið rithöfunda í heimsókn auk þess sem þeir nemendur sem eru að æfa á hljóðfæri hafa spilað fyrir okkur á sal skólans.

Í myndaalbúmum á forsíðunni má sjá myndir frá þessum viðburðum.