Heilsugæsla

Heilsugæsla Hamraskóla heyrir undir Heilsugæsluna í Grafarvogi.

Julia Werner er skólahjúkrunarfræðingur skólans.

Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Viðverutími skólahjúkrunarfræðings í Hamraskóla er á

þriðjudögum kl. 8-12 og fimmtudögum kl. 9.15- 12.

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að börn fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Nánari upplýsingar um skólaheilsugæslu er að finna á heilsugaeslan.is og 6h.is. Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar

1. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtali um lífstíl og líðan.       

4. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtali um lífstíl og líðan.

7. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtali um lífstíl og líðan. Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta) og HPV gegn leghálskrabbameini hjá stúlkum ( 3 sprautur á 6 mánuðum).

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til. Skólaheilsugæsla fylgist einnig með því að börn hafi fengið þær bólusetningar sem tilmæli Landlæknis segja til um. Ef börn hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar verður haft samband við foreldra.

6H Heilsunnar-Heilbrigðisfræðsla

Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta ýmist í hópi eða á einstaklingsgrunni. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-h heilsunnar sem er samstarfsverkefni Heilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Áherslur fræðslunnar eru hollusta – hvíld – hreyfing – hreinlæti – hamingja - hugrekki og kynheilbrigði. Eftir fræðslu fá foreldrar sent bréf og gefst þeim þá kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu.

Slys og veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum.Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insulíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Foreldrar/forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma.

Lús

Lúsin kíkir alltaf reglulega í heimsókn yfir skólaárið og því mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega, t.d. vikulega.

Svefntími barna

Svefntími barna skiptir miklu máli og mikilvægt er að börnin fái nægilegan svefn, því hann hefur áhrif á líðan og getu til að nýta hæfileika sína.

Líðan barna

Til að njóta sín í námi verður barninu að líða vel í skólanum. Heilsuvernd skólabarna hvetur foreldra til að vera vakandi yfir líðan barna sinna og spyrja þau reglulega um líðan sína. Einnig að hafa hugfast að hrós og hvatning styrkja jákvæða hegðun og auka vellíðan. Foreldrar geta ávallt leitað ráðgjafar hjá skólahjúkrunarfræðingi varðandi málefni er varða líðan og heilbrigði barnsins.