Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Á þessum degi eru Íslenskuverðlaunum unga fólksins úthlutað. Hver grunnskóli tilnefnir fulltrúa til verðlaunanna sem sýnt hafa áhuga og færni í íslensku hvort sem það er í ritun, tjáningu eða læsi. Hamraskóli tilnefndi einn nemanda af hvoru stigi til Íslenskuverðlaunanna. Í ár fengu Anna Hrefna Jóhannesdóttir í 7. bekk og Þórarinn Hallbjarnarson í 4. bekk verðlaunin og óskum við þeim hjartanlega til hamingju.
Umsögn um Önnu Hrefnu:
Anna Hrefna er fyrirmyndarnemandi og þá sérstaklega í íslensku. Hún hefur mikinn áhuga á lestri og hefur mjög góða lestrarfærni. Þá er hún mjög góð í framsögn og þegar hún les upphátt gerir hún það af mikilli innlifun. Það er mjög áhugavert að ræða við hana um bókmenntir og hefur hún mikla þekkingu á því og getur reynst gott að spyrja hana um meðmæli á bókum. Anna er einnig mjög fær í því að semja sínar eigin sögur og býr hún yfir miklu ímyndunarafli og eru sögurnar hennar mjög skemmtilegar.
Umsögn um Þórarinn:
Þórarinn er fróðleiksfús og les mikið, hann hefur góðan orðaforða og nýtir sér það bæði í ritunarvinnu og tjáningu. Þórarinn er virkur þátttakandi í umræðum, hann kemur með tillögur að gagnlegum árangursviðmiðum og nýtir sér þau sjálfur í verkefnavinnu. Hann er vandvirkur og áhugasamur nemandi.